Gamla skólahúsiðSkólahúsið var reist sumarið 1910 eftir teikningu og forsögn Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara. Þá var Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri. Í skólahúsinu voru heimavistarherbergi nemenda á efstu hæðunum tveimur og kennslustofur á fyrstu hæð, bjartar og rúmgóðar. Fyrir framan þær er forsalur „ætlaður eingöngu til áfloga og skemmtana,“ eins og skólastjóri orðaði það í skýrslu um framkvæmdir. Í forsalnum var flogist á, glímt og dansað vetur eftir vetur.

Halldór taldi að um þrjár milljónir punda af byggingarefni (1500 tonn) hefðu farið í húsið sem er steinsteypt. Hefur skólahúsið reynst hafa verið afar traustbyggt í hvívetna.

Byggingarmeistari hússins var Stefán Egilsson, faðir Sigvalda Kaldalóns tónskálds. Vitað er að annar sonur Stefáns, Eggert, síðar stórsöngvari, lagði líka hönd að húsbyggingunni. Má því vera að afmorssöngvar og framandi hetjuaríur hafi heyrst úr Hvanneyrarbátnum þegar hann sótti byggingarefnið í Borgarnes.

Í kjallara skólahússins voru m.a. eldhús og borðstofa nemenda, þvottahús og hitunarvél, en mikil hersla var lögð á góða kyndingu hússins og loftræstingu þess. Þar niðri var svo sett olíuknúin ljósavél á þriðja áratugnum. Í kjallaranum var líka brunnur til vatnsöflunar. Öllu skolpi úr húsinu var safnað og það notað til áveitu yfir Hvanneyrarengjar.

Ósjaldan dvöldu í skólahúsinu 50-60 nemendur, í 2-6 manna herbergjum – stundum voru þeir fleiri saman. Um hríð var kennaraíbúð í skólahúsinu. Húsið var heimili, skóli og skemmtistaður Hvanneyringa í ríflega sextíu ár. Það geymir því sögu margra, mætti það mæla.

Og fleira má nefna úr sögu hússins:
Ungmennafélagið Íslendingur var stofnað í nyrðri skólastofunni á fyrstu hæð þann 12. desember 1911. Fundaði þar oft síðan.
• Til var að messur væru sungnar skólahúsinu í vetrarkuldum. Jólatrésskemmtanir sóknarinnar voru haldnar þar um árabil – fram yfir 1970.
• Þar var rekið barnaheimili á stríðsárunum síðari með allt að sextíu börnum í sumardvöl.
• Sú fræga Skóla-Jóna er sögð hafa búið um sig í skólahúsinu á óskilgreindum tíma framanvert á ævi þess.
• Þýski búfræðingurinn Hellmut Lotz stundaði þar rannsóknir á votheysveiki (Hvanneyrarveiki) í sauðfé árið 1928. Lét Halldór skólastjóri útbúa fyrir hann lokaða rannsóknaaðstöðu í kjallara hússins. Minnstu munaði að dr. Lotz, þá enn bráðungur, næði að skýra til fulls orsök hinnar skæðu veiki.
• Háskólakennsla í búfræðum – fyrsta háskólakennslan hérlendis utan Reykjavíkur – hófst í þessu skólahúsi haustið 1947. Þá var þar líka settur vísir að kennslu-rannsóknastofu í efnafræði.
• Skólahúsið hefur a.m.k. í tvígang eftir óhöpp skotið þaki sínu yfir vegalausa starfsmenn skólans: fyrst við bruna skóla(stjóra)hússins haustið 1917, og síðan aftur haustið 1973, er þakið fauk af „Nýja verkfærahúsinu,“ því sem nú er gjarnan kallað Gamla-Bút.

Með tilkomu nýs skólahúss á Hvanneyri (nú Ásgarðs) á árunum 1965-70 fækkaði nemendum, er bjuggu í skólahúsinu. Það fékk því brátt nafnið Gamli skóli. Hluta herbergja á annarri hæð var breytt í kennslustofur og nokkur nemendaherbergi gerð að skrifstofum fyrir kennara skólans. Síðar var fleiri kennslustofum og snyrtingum komið fyrir í kjallara hússins.

Hagþjónusta landbúnaðarins hóf starfsemi sína á annarri hæð hússins árið 1990 og starfaði þar fram yfir aldamótin. Raunar hafði Guðmundur Jónsson, síðar skólsatjóri, starfrækt búreikningastofu þar undir þaki þegar á fjórða áratug fyrri aldar.

Á sínum tíma var húsið með vönduðustu skólahúsum landsins hvað vist nemenda og kennsluaðstöðu snerti. Að megingerð og útliti heldur skólahúsið sinni upphaflegu gerð þótt það hafi verið bætt og því breytt á ýmsan veg í tímanna rás að kröfum þeirra. Bíslög voru til dæmis sett framanvið hvort anddyri og rúðusetningum glugga hefur verið breytt.

Nú er búið að koma upp þekkilegri gistiaðstöðu í fyrrum heimavistarherbergjum nemenda á annarri og þriðju hæð hússins.

Skólahúsið mótar með nálægum byggingum Gamla staðinn á Hvanneyri. Hann er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar.
Bj.Guðm.