Göngu- og reiðleiðir á HvanneyriMöguleikar til útivistar á Hvanneyri eru miklir, stígakerfið er fjölbreytt og eru stígarnir misjafnir að gerð. Til að komast „suður í Land“ er hægt að fara inn á vegarslóða fyrir vestan Ásgarð með stefnu á Hafnarfjall. Þegar komið er uppá Stekkjarholtið liggur vegarslóðinn meðfram beitarhólfum suður að Andakílsá og síðan meðfram henni til norðausturs. Frá ánni liggur slóðinn meðfram Ausulæknum og áleiðis að Skjólbeltunum. Leiðin er um 3,5 km löng og er tilvalin sem göngu-, hjóla- eða reiðleið.

Sjá kort hér.

Einnig er hægt að ganga eða ríða að Tungutúnsborg og þaðan að Móholti með stefnu á Brekkufjall. Þar tengist stígurinn vegarslóðanum sem liggur meðfram Andakílsá. Þessi leið er ekki eins greiðfær og leiðin af Stekkjarholti.

Göngu- og reiðleið liggur frá Ásgarði með stefnu á Hvítá, að Ásgarðshöfða og meðfram Hvítá. Gatan heitir Tíðagata og er leiðin út í Kistuhöfða um 3,6 km og er víðast hvar greinileg.

Fyrir norðan Ásgarð liggur göngu- og hjólastígur að kirkjunni og gömlu húsunum. Frá kirkjunni er Ásvegur sem liggur áleiðis að fjósinu og hesthúsahverfinu. Frá gatnamótum Hvítárvallavegar er hægt að stefna austur að Vatnshamravatni.

Frá íbúðarhverfinu í Sóltúni er hægt að ganga eða fara ríðandi stíg sem liggur fyrir norðan hverfið austur að Hvanneyrarbrautinni. Frá þjóðveginum er hægt að ganga norður yfir litla göngubrú norður Grásteinsmýri og síðan fylgja slóðanum meðfram túnunum fyrir sunnan Kjarnorkusléttu. Hægt er að fara að Ásveginum eða fara í gegnum „Orminn langa“ sem eru skjólbelti.

Skjólbeltin fyrir sunnan Hvanneyrarbrautina og Sóltúnið eru kjörinn áningarstaður fyrir göngu- og hjólreiðafólk. Þar er að finna góða aðstöðu til útikennslu fyrir skólabörn staðarins.

Sjá annað reiðleiðakort hér.