Greiningar á grasi og fóðri - Leiðbeiningar við sýnatökuTil þess að sýni úr stóru kerfi, eins og til dæmis heybirgðir í stæðu, geti gefið rétta mynd af meðaltali kerfisins þarf að ganga skipulega til verks við sýnatökuna. Ef kerfið er einsleitt þá er málið einfalt, þá dugar að taka eitt sýni einhverstaðar úr kerfinu til að fá fullgildan fulltrúa fyrir allt kerfið. En kerfi eru sjaldnast einsleit og þá þarf að skipuleggja sýnatökuna.

Hirðingarsýni
Sýni er tekið við hirðingu og á að gefa þverskurð af heyinu á spildunni. Því má t.d. ná með því að fara eftir hornalínu spildunnar og taka hey hér og þar í lausu eða bora sýni úr rúllum eftir að búið er að rúlla heyinu. Útbúið er samsýni til efnagreiningar með því að blanda sýnunum af viðeigandi spildu vel saman og setja lítinn hluta af því í einn poka. Athugið umfjöllun um stærð heysýna hér að neðan.

Verkuð sýni
Fóðrið þarf að hafa verkast í u.þ.b. 6 vikur. Sýni úr stæðum er best að taka þegar stæðan er opnuð en samt með góðum fyrirvara áður en heyið er gefið svo niðurstöður efnagreininga liggi fyrir við gjöfina. Tekið er þversnið af stæðunni með því að bora með sýnabor á 5-7 stöðum og því blandað saman í eitt sýni. Athugið umfjöllun um stærð heysýna hér að neðan.

Við sýnatöku úr rúllum þarf að bora á 2 stöðum í hverja rúllu bæði ofarlega og neðarlega í hlið rúllunar og taka þannig sýni úr 2-3 rúllum fyrir eitt samsýni. Úr þessu ættu að koma að hámarki 6 „tappar" sem senda má saman sem eitt sýni til greiningar enda séu „tapparnir" af staðlaðri stærð ca. 50x150 mm. Athugið umfjöllun um stærð heysýna hér að neðan. Gott er að huga að sýnatökunni strax og rúllurnar eru keyrðar heim á sumrin. Rúllur sem eiga að fara í sýnatökuna eru þá settar til hliðar og gefnar strax og búið er að gata þær.

Meðferð fóðursýna
Þegar tekin eru sýni þarf að koma þeim strax í frysti og geyma þar til þau eru öll send til efnagreiningar. Þetta er sérstaklega mikilvægt með sýni sem ekki eru þurr.

Merking fóðursýna
Mikilvægt er að merkja sýnin vel. Það sem þarf að koma fram er nafn bónda og kennitala verkbeiðanda, nafn býlis, búsnúmer, sláttudagur, hirðingadagur, 1. eða 2. sláttur, hvort um sé að ræða grassýni, hirðingarsýni eða verkað sýni. Einnig verkunaraðferð, rúllur, þurrhey, vothey o.s.frv. Er þetta gras eða grænfóður og þá hvað? Æskilegt er að tilgreina spildu eða auðkenna sýnið á einhvern hátt sem og hvað á að láta efnagreina. /Berglind Ósk Óðinsdóttir, fóðurráðunautur BÍ.

Stærð heysýna
Heysýni sem berast Landbúnaðarháskóla Íslands til efnagreiningar eru oft óþarflega stór. Bæði veldur það auknu vinnuálagi hjá starfsfólki Efnarannsóknastofu LbhÍ og einnig veldur það ónákvæmni við sýnatökuna. Árlega eru skoðuð um þúsund heysýni hjá Lbhí og því skiptir máli að sýnin séu af sem réttastri stærð til að spara vinnu og tryggja gæði greininganna.

Það eru takmörk fyrir því hversu stór sýnin mega vera í greiningarferlinu og þegar sýnin eru of stór þurfa starfsmenn okkar að velja hvaða hluta sýnisins þeir setja í greiningu. Þá er hætta á því að sá hluti sem settur er í efnagreiningu endurspegli ekki allt svæðið sem sýnin eru tekin af. Ef ætlunin er að senda samsýni af mörgum sýnatökustöðum, sem er reyndar æskilegt, þarf að blanda þeim vel saman og senda síðan einungis lítið magn af blöndunni til greiningar. Miða ætti stærð sýna við 1L eða að hámarki 300g. 

Efnagreiningar á heyi (gildir einnig fyrir annað sambærilegt fóður og húsdýraáburð)

Almenn efnagreining á heyi felur í sér greiningu á steinefnainnihaldi, sýrustigi, orku, próteini, tréni, ösku og þurrefni. Steinefni (Ca, Mg, Na, K, P, S, Fe, Mn, Zn og Cu), sýrustig, aska og þurrefni eru mæld á rannsóknarstofunni á Hvanneyri en orka, prótein og tréni eru mæld á Keldnaholti.

Greiningin fer þannig fram að þegar sýnin berast í hús eru þau vegin og sett í þurrkun við 70°C yfir nótt. Af blautum verkuðum sýnum er reyndar tekin frá smá skammtur sem ekki er þurrkaður og sýrustigið mælt í honum með elektróðu. Eftir þurrkun eru sýnin möluð og teknir af þeim viðeigandi skammtar fyrir hinar mismunandi efnagreiningar.

Steinefnamælingin fer þannig fram að skammtur af sýninu er leystur upp í saltpétursýru við 125°C yfir nótt og síðan þynnt og mælt í svokölluðu ICP tæki sem hitar sýnið yfir 6000°C og mælir geislunina frá einstökum efnum (atómum) til að ákvarða styrk þeirra.

Þurrefni og aska eru mæld þannig að skammtur af sýninu er fyrst þurrkaður við 103°C og veginn en síðan brenndur við 550°C í ofni og askan vegin.

Í þjónustusýnum og mörgum rannsóknarverkefnum eru orkugildi, prótein og tréni greind í sömu innvigt af sýni með NIR tækninni. Í sérstökum rannsóknarverkefnum eru ofangreindir þættir greindir hver fyrir sig og einnig þegar einungis þarf að greina eitt efni t.d. prótein.