Húsin á HvanneyriStaðsetning gömlu húsanna á Hvanneyri og skipulag þeirra innbyrðis á sér nær enga hliðstæðu hérlendis. Rýmismyndun þeirra er sterk og skipulagið líkist um sumt formi danskra stórbýla. Jafnframt sýna þau tilraunir húsameistaranna til þess að skapa nýjan íslenskan byggingarstíl – að finna nýjum húsagerðarhugmyndum og nýjum byggingarefnum form í íslensku umhverfi.

Það er ástæða til þess að vekja athygli staðargesta á þeim þætti í nýsköpun íslenskrar byggingarsögu er varð á framanverðri tuttugustu öld, svo og hlut húsameistaranna sem að henni stóðu. Þeirrar sögu má njóta með stuttri gönguferð um Gamla staðinn á Hvanneyri. Öllu athyglisverðara dæmasafn um þennan söguþátt er vart að finna í sveit á Íslandi. Húsasafnið er um leið rammi um sögu búnaðarmenntunarinnar, eiginlega fyrstu formlegu starfsmenntunarinnar sem landsmenn áttu kost á hérlendis.

Þann 11. júlí 2015 voru elstu byggingarnar á Hvanneyrartorfunni friðlýstar, ásamt svæðinu sem þær standa á, minjum, flæðiengjum og fitjum á bökkum Hvítár. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem gerði það með formlegum hætti. Friðlýsingin tekur til gömlu húsana, ásýndar staðarins, mannvistarleifa, garða, minningarmarka í kirkjugarði, jarðræktarminja, flóðgarða og áveitukerfa sem tengdust engjarækt á bökkum Hvítár. Þetta er í fyrsta sinn sem húsminjar og menningarheildir eru friðlýstar.


Ásgarður

Þar eru skrifstofur, kennslustofur, mötuneyti og móttaka. Ásgarður var byggður á árunum 1965 – 1979 en var mikið endurnýjaður árið 1996. Húsið er teiknað af Sigurjóni Sveinssyni og Þorvaldi Kristmundssyni. Nafnið Ásgarður er eiginlega sótt til gamals býlis í Hvanneyrarhverfinu er stóð NNV af þessari byggingu.


Rannsóknahús
Þar fer fram verkleg kennsla í efnafræði og fleiri fögum. Bóksala skólans er í forstofu Rannsóknahússins. Stórt gróðurhús er við Rannsóknahúsið. Margvísleg verkleg kennsla fer fram í gróðurhúsinu.


Hvannir - skrifstofuhús

Í Hvannahúsinu hafa fyrirtæki/stofnanir tengd landbúnaði skrifstofuaðstöðu.


Skemman
Skemman er elsta húsið á Hvanneyri, byggt árið 1896 að tilhlutan biskups, sem frekar vildi láta byggja slíka geymslu en láta nota gömlu kirkjuna til slíks, sem hafði þá verið gert um árabil. Eftir að Skólastjórahúsið brann 1903 var skemman lagfærð og bjó heimilisfólk á Hvanneyri (35-40 manns) í henni í rúmt ár, þar til nýtt íbúðar- og heimavistarhús var reist. Árin 1907 – 1911 var kennd leikfimi uppi á lofti Skemmunnar. Haft er eftir einum nemanda að við leikfimiæfingar á skemmuloftinu hafi verið æði "kalt og karlmannlegt" stundum. Skemmunni hefur nú verið breytt í safnaðarheimili.


Leikfimihúsið
Leikfimihúsið var byggt 1911, að mestu leyti úr afgangstimbri frá byggingu Gamla skólans, 1910. Húsið var ekki eingöngu notað til leikfimikennslu; þar voru einnig haldnir fræðslufundir og samkomur enda var salurinn á þeim tíma stærsti samkomusalur í Borgarfirði. Leikfimihúsið er enn notað sem íþróttahús Hvanneyringa. Myndband um endurbyggingu hússins


Gamli skólinn
Þar eru kennslustofur og herbergi fyrir gesti á efri hæðunum. Húsið var reist árið 1910 eftir uppdrætti Rögnvaldar Ólafssonar. Fyrir framan kennslustofur á fyrstu hæð hússins er lítill salur sem að sögn Halldórs Vilhjálmssonar þáverandi skólastjóra var ætlaður til "áfloga og skemmtana".


Skólastjórahúsið
Fyrsta skólastjórahúsið á Hvanneyri var reist 1889, það brann 1903. Árið eftir var reist nýtt hús sem brann 1917. Húsið sem nú stendur er byggt árið 1920 á sama stað og þau fyrri. Það er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, og var gert með tvöföldum steyptum veggjum með móeinangrun og kostaði í þá daga um 194 þúsund krónur. Í kjallara hússins þar sem áður var borðsalur skólans er bókasafn Landbúnaðarháskólans. Garðurinn suðvestanvert við húsið (skólagarðurinn) er að stofni til frá fyrsta tug aldarinnar.


Pöbbinn
Í gömlu hestaréttinni á Hvanneyri í svokallaðri Dyngju er Pöbbinn. Nyrðri hluti byggingarinnar er að stofni til elsta fjós skólans, byggt laust fyrir aldamótin 1900.


Fjósið (Halldórsfjós) - Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið
Fjósið á Hvanneyri er teiknað af Guðjóni Samúelssyni og var byggt á árunum 1928-1929. Það var byggt fyrir 80 gripi og þótti stórt og vandað á sínum tíma. Á fjósloftinu var íbúð og þar var einnig efnarannsóknastofa skólans um 40 ára skeið. Landbúnaðarsafnið flytur í þetta hús árið 2013. Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið eru staðsett í fjósinu. Ullarselið er verslun með vandað handverk, ullarvörur úr íslenskri ull og gæðahandverk úr íslensku hráefni. Í Landbúnaðarsafninu er að finna gamlar búvélar og verkfæri sem tilheyra tæknisögu íslensks landbúnaðar. Myndband um Fordson. Myndband um skilvindur

Nýja fjósið á Hvanneyri
Fjósið (Nýja fjós)
Þann 6. ágúst árið 2004 var tekið í notkun nýtt og glæsilegt kennslu- og tilraunafjós á Hvanneyri með 58 legubása fyrir mjólkurkýr. Í fjósinu er aðstaða til kennslu. Þar býr fjósakötturinn Rjómi sem tekur vel á móti gestum.


Bútæknihús
Í Bútæknihúsi fer m.a. fram kennsla í málmsuðu og þar er einnig kennslustofa. Þar er skrifstofa skólabúsins og verkstæði sem jöfnum höndum er notað til nýsmíði, viðgerða og ýmissa þróunar- og rannsóknaverkefna tengdum bútækni. Húsð var tekið í notkun haustið 1987.

Gömlu fjárhúsin
Fjárhús skólans var lengi á efri hæð hússins. Á neðri hæðinni hefur hesthús verið um árabil og þar hófst fyrst formleg kennsla í tamningum hérlendis. Í fjárhúsunum er hefð fyrir því að koma saman og grilla á vorin og haustin.


Hvanneyrarkirkja
Fram til ársins 1893 var torfkirkja inni í kirkjugarðinum á Hvanneyri en hún var heldur hrörleg. Suðuramtið lét svo reisa nýja kirkju 1893. Þegar hún kom var torfkirkjan notuð sem skemma en mislíkaði biskupi það og lét rífa hana. Nýja kirkjan stóð á hól sunnan við kirkjugarðinn. Hún þótti ekki sterklega byggð og fauk í ofviðri 1902. Kirkjan sem nú stendur var teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni arkitekt og reist 1905.