Hvanneyri - brot úr sögu
Hvanneyri er landnámsjörð, numin af Skalla-Grími sem bjó á Borg en Grímur hinn háleyski bjó á Hvanneyri. Í Landnámu stendur að Skalla-Grímur hafi gefið Grími hinum háleyska Þórissyni land "fyrir sunnan fjörð á milli Andakílsár og Grímsár. Hann bjó á Hvanneyri. Tímanna rás var fremur hljótt um staðinn fram á nítjándu öld, en þó er vitað til þess að á Hvanneyri var kirkja á tólftu öld.

Ekki var Hvanneyri höfðingjasetur en oft sátu þar betri bændur. Á 15. öld bjuggu þar tengdafeðgar, Auðunn hyrna Salómonsson sem átti mest alla bændaeign í Borgarfirði og Vermundur Kolbeinsson sem var mun ríkari.

Frá 1793 var amtmannssetur á Hvanneyri er þar bjó Stefán Stephensen til ársins 1811 þegar hann flutti að Hvítárvöllum.

Umsögn landkönnuðar
Breski landkönnuðurinn G.M. MacKenzie kom að Hvanneyri um 1810 og fjallar um komu sína í ferðabók sem hann gaf út. Hann segir að búið sem amtmaður reki sjálfur sé talið það besta á landinu. Amtmaður bjó með 30 – 40 hross, 50 kýr og 200-300 kindur, "og aflar nægra heyja fyrir hinn stóra bústofn sinn til vetranna sem eru langir á Íslandi".

MacKenzie heldur því fram að Hvanneyri sé einhver besta jörðin á landinu og sé það einkum vegna engjanna með Hvítá, sem gefi mikið af sér. Árið 1886 var stærð engjanna um 400-500 dagsláttur og meðalheymagn árlega 3000-4000 hestburðir, en til samanburðar var túnið aðeins 46 dagsláttur og gaf af sér 370 hestburði af töðu.

Þrjár jarðir hafa verið lagðar undir Hvanneyri (Kista, Ásgarður og Hamrakot), auk þess sem voru fjögur býli sem tilheyrðu Hvanneyri (Tungutún, Svíri, Staðarhóll og Bárustaðir). Afbýlin voru lögð undir Hvanneyri um svipað leyti og bændaskóli var stofnaður fyrir aldamótin 1900.

Búnaðarskóli Suðuramtsins
Um vorjafndægrin 1889 birtist auglýsing í blaðinu Ísafold frá amtmanninum í Suðuramtinu þess efnis, að stofnaður yrði búnaðarskóli á Hvanneyri í Borgarfirði þá um vorið. Tilkynnt var, að sex nemendur á aldrinum 18-28 ára gætu fengið aðgang að skólanum þann 14. maí, enda uppfylltu þeir sannanlega nánar tilgreindskilyrði um undirbúning svo sem og líkamlegt og andlegt atgervi.

Samkvæmt blaðafrásögn sumarið 1889 skyldi það vera aðalmarkmið skólans ... "að kenna sem best allan "praktiskan" verknað. Kenna piltum að læra að vinna og sem besta vinnuaðferð,við túnrækt, garðrækt, vatnsveitingar, kvikfjárrækt, heyvinnu og vöruverkun." Í öðru lagi skyldi þar gera "alls konar tilraunir í búnaði, svo sem við túnrækt, við sljettanir, við ræktun á grasfræi, sáðtegundum, garðávöxtum, við kynbætur, brúkun á betri verkfærbætur, brúkun á betri verkfærum og innleiðslu þeirra o.s.frv."

Mjólkurskóli var starfræktur árin 1900 – 1903 en hann var síður fluttur að Hvítárvöllum.

Bændaskólinn á Hvanneyri
Veturinn 1890 setti Amtsráðið skólanum ítarlega reglugerð, er staðfesti hlutverk hans. Hið opinbera nafn skólans var Búnaðarskóli Suðuramtsins. Hvanneyrarskóli varð sá fjórði í röð íslensku búnaðarskólanna. Á vegum Suðuramtsins var búnaðarskólinn síðan rekinn til ársins 1907, að ríkið tók við rekstri hans. Um leið fékk hann nafnið Bændaskólinn á Hvanneyri.

Ekki urðu viðbrögðin mikil við fyrstu auglýsingu skólans. Aðeins einn nemandi sótti um skólavist. Það var Hjörtur Hansson frá Hækingsdal í Kjós. Kom hann í skólann um Krossmessu vorið 1898, en skólaárið taldist þá frá miðjum maí tiljafnlengdar næsta ár. Þá var Sveinn Sveinsson, fyrsti skólastjórinn á Hvanneyri, kominn til starfa. Var hann jafnframt eini kennari skólans til að byrja með.

Framhaldsnámi í búnaðarfræðum á háskólastigi var komið á fót 1947 með stofnun sérstakrar deildar innan skólans, Framhaldsdeild, sem síðar nefndist Búvísindadeild. Með því skyldi mennta starfsmenn til leiðbeiningastarfa í landbúnaði, svo og annarra sérfræðistarfa í þágu hans. Í fyrstu var námið við framhaldsdeildina tvö ár að lengd. Því lauk með kandídatsprófi. Þáttur tilrauna og rannsókna á Hvanneyri efldist, er kennsla í búvísindum hófst þar. Við stofnun Framhaldsdeildarinnar var komið á fót efnarannsóknastofu á Hvanneyri vegna kennslu í efna- og eðlisfræði.

Árið 1955 varð tímamótaár í rannsóknastarfi á Hvanneyri. Þá hófust verkfæratilraunir Verkfæranefndar ríkisins þar, en einnig skipulagar jarðræktartilraunir á vegum Bændaskólans.

Breytt búnaðarfræðsla 1980
Um 1980 var gerð róttækt breyting á hinu almenna búnaðarnámi í kjölfar nýrrar löggjafar um búnaðarfræðslu, er sett var 1978. Nám í bændadeild skólans varð tveggja ára nám. Farið var að meta það til eininga líkt og námí öðrum framhaldsskólum. Hlutur hins verklega náms var efldur og aukinn.

Fróðleiksmolar um Hvanneyri
Núverandi kirkja staðarins var reist 1905 en fyrri kirkja fauk árið 1903. Söfnuðurinn neitaði að byggja nýja kirkju.Það kom því í hlut amtsins að byggja kirkjuna sem var síðar afhent Bændaskólanum til eignar og varðveislu. Kirkjan er reist eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar, altaristaflan er frá 1929 og er hún verk Brynjólfs Þórðarsonar. Altari og prédikunarstóll eru skreytt eftir Grétu Björnsson. Pípuorgel kirkjunnar var vígt í nóvember 1997.

Þegar spænska veikin gekk á Hvanneyri árið 1918 bjuggu starfsmenn skólabúsins einangraðir í kirkjunni og sluppu þannig undan veikinni.

Árið 1907 var myndarlegt heim að Hvanneyri að líta: Veglegt skólahús á mælikvarða þess tíma, nýbyggð kirkja, stórt og gott 40 kúa fjós, fyrirmyndar fjárhús yfir um 450 fjár, hesthús yfir 40 hross, hlöður og votheysgryfjur sem tóku um 3700 hestburði af heyi, auk smærri bygginga.

Suðvestur af Kirkjuhól, sem kirkjugarðurinn er utan í, er annar hóll sem heitir Mylluhóll. Í ferðabók MacKenzie er þess getið að vindmilla hafi verið á Hvanneyri, notuð til að mala korn, og var hún sú eina sinna tegundar á Íslandi.

Með tímanum verður staðarnafn sjálfsagður hlutur, sem fáir veita sérstaka athygli. Líklegt þykir, að Hvanneyri dragi nafn sitt af plöntuheitinu hvönn (Angelica). Er hún eftirsótt af búfé, var áður nýtt til manneldis og þótti mögnuð sem lækningajurt: "Urtin er kölluð besta meðal í móti drepsótt og eitri; dreifir stöðnuðu vondu blóði; læknar innvortis meinsemdir, og eyðir öllum vondum vessum"... skrifaði séra Björn í Sauðlauksdal. Í fornbréfum eru dæmi um að nafn jarðarinnar sé ritað Hvann-Eyri.