Innra mat á gæðum starfsemi LbhÍInnra mat á gæðum starfs Landbúnaðarháskóla Íslands fer fram með margvíslegum hætti.

1. Nemendur meta gæði kennslu með formlegum hætti á þar til gerð rafræn eyðublöð og er farið yfir niðurstöður á kennslusviði og gerðar viðeigandi úrbætur eftir því sem þurfa þykir.

2. Kennslunefnd starfar við skólann þar sem námsbrautastjórar og aðrir lykilaðilar kennslumála fara yfir álitamál sem upp koma og gera tillögur um endurbætur er varða kennslu og þróun hennar.

3. Allir faglegir starfsmenn skila inn yfirliti um árangur í rannsóknum og faglegu starfi árlega. Farið er yfir niðurstöðurnar á rannsóknasviði og gerðar tillögur um úrbætur eftir því sem við á. Jafnframt er reynt að auka skilvirkni rannsókna með afkastahvetjandi greiðslum á hverju ári.

4. LbhÍ er háð ytra eftirliti samkvæmt lögum nr 63/2006, þar sem lagðar eru fram ítarlegar lýsingar á innihaldi náms og innviðum skólans, m.a. í alþjóðlegu samhengi. Sá ferill hófst í mars 2007.

5. Siðareglur LbhÍ taka til gæðaþátta, m.a. er varðar gæði kennslu, réttindi nema og starfsfólks.

6. Auðvelt er að fylgjast með gæðaþáttum starfsins í litlum skóla sem LbhÍ og sú sérstaða er nýtt með sterkum persónulegum tengslum, hvatningu og jákvæðri samkeppni innan skólans.

7. Ábyrgð á hverju námskeiði er vel skilgreind og í höndum tiltekins námsbrautarstjóra, sem tryggir gæði kennslu annarra í samráði við kennslusvið.

Námsbrautarstjórar annast samskipti við einstaka kennara námskeiða og ræða við þá m.a. um eftirfarandi:

a) Hafa námsmarkmið í viðkomandi námskeiði verið skilgreind og í samræmi við gildandi viðmið um þá námsgráðu sem um ræðir?

b) Er námsefnið og efnistök þess eðlis að það styðji sett námsmarkmið?

c) Er námsmatið þannig framkvæmt að það mæli þann árangur sem námsmarkmiðin gera ráð fyrir að náist með námskeiðinu?

d) Er námsárangur nemenda í samræmi við sett námsmarkmið og gæði?

8. Deildarforseti á trúnaðarsamtal við alla einstaka starfsmenn deildar árlega, sem m.a. varðar gæði faglegs starfs og hvernig stuðla megi að bættum árangri. Allir aðrir starfsmenn stofnunarinnar fá samskonar viðtal við sinn næsta yfirmann.

9. Ráðningarferli faglegra starfsmanna fylgir reglum stjórnsýslunnar og ströngum akademískum reglum, þar sem dómnefndir meta hæfi umsækjenda.

10. LbhÍ styður endurmenntun kennara á sviði kennslumála og þeim stendur til boða námskeið á sviði kennslufræða o.fl.

11. Loks má nefna að unnin hefur verið umhverfisstefna, starfsmannastefna og jafnréttisstefna sem allar hafa verið samþykktar af háskólaráði.

Meðal starfsmanna LbhÍ eru gróin viðhorf til gæðamenningar innan hópsins en minni áherslur hafa verið á formleg gæðakerfi. Lítill skóli leiðir til mikillar námundar kennara og nemenda sem hefur gert mögulegt að fylgjast vel með afdrifum nemenda og árangri í störfum eftir nám og í framhaldsnámi erlendis. Í lögum um háskóla nr 63/2006 er samkvæmt 12 gr. kveðið á um að birta skuli upplýsingar um innra gæðastarf skólanna. Þetta atriði hefur ekki komist í framkvæmd enn, enda aðeins rúmt ár frá gildistöku laganna og vegna þess hve sumar námsbrautir við skólann eru nýjar af nálinni í núverandi formi. Stefnt er að því að finna þessum þætti gæðastarfsins farveg nú á næstu mánuðum.

Markmið innra gæðakerfis LbhÍ:

Að þróa mælikvarða um gæðamál og sjá til þess að þau séu í samræmi við það sem best gerist á hverjum tíma til að tryggja samkeppnishæfi skólans og að hann standist alþjóðleg gæðaviðmið um frammistöðu háskóla í kennslu og rannsóknum.

Að allar prófgráður sem stofnunin veitir njóti lögbundinna vottana, trausts og viðurkenningar.

Að auka hæfi kennara á starfstíma þeirra m.a. með því að tryggja þeim aðgang að endurmenntun í kennslutækni.

Að auka hæfi kennara á starfstíma þeirra m.a. með því að tryggja þeim svigrúm til rannsóknaleyfa með hæfilegu millibili.

Að hæfi starfsmanna við ráðningu uppfylli ýtrustu faglegar kröfur sbr. reglur um mat á akademísku hæfi og störf dómnefndar.

Að láta fara fram kerfisbundið mat á störfum kennara, m.a. með kennslukönnunum til að auðvelda kennurum sjálfsmat og gera stjórnunareiningum stofnunarinnar möguleika á að stuðla að bættri kennslu.

Að meta virkni og árangur í rannsóknum.

Að annast sjálfsmat deilda vegna ytra mats, sbr. lög um háskóla nr. 63, 2006.

Að stuðla að skilvirkri, sveigjanlegri og gegnsærri stjórnsýslu sem kappkostar að svara erindum innan tveggja vikna nema reglur kveði á um annað.

Að nemendur og starfslið hafi auðveldan aðgang að stjórnendum annað hvort á föstum fundum eða viðtalstímum.

Að stjórnendur hafi reglubundinn aðgang að endurmenntun á sviði stjórnsýslu.

Að þróa og viðhalda upplýsingakerfum og upplýsingagjöf skólans með útgáfu ársskýrslu og rekstri heimasíðu með aðgengilegum upplýsingum.

Að birta með skýrum hætti upplýsingar um: námsframboð, starfsreglur, menntun, starfsferil og ritsmíðar allra fastra starfsmanna, réttindi og skyldur nemenda og síðast en ekki síst niðurstöður innra gæðamats með reglubundnum hætti.