Skipulagsfræði - MeistaranámNámsbraut í Skipulagsfræði er tveggja ára MS nám með sjálfbæra þróun og sköpun lífvænlegs umhverfis að leiðarljósi. Lögð er áhersla á gagnrýna skipulagshugsun.

Skipulagsfræði er sjálfstæð fræðigrein, en henni tengist fjöldi annarra faggreina svo sem lögfræði, félagsfræði, hagfræði, landfræði, náttúrufræði, sagnfræði, arkitektúr og verkfræði. Mikilvægt er að skipulagsfræðingar á Íslandi hafi aflað sér þekkingar á náttúrufari, veðurfari, samfélagi, hagkerfi, lagaumhverfi, tækni, menningu, fagurfræði, sögu landsins, byggðarþróun og innri gerð byggðar.

Sjálfstætt rannsóknarverkefni vegur einn fjórða á móti skipulögðum námskeiðum.
Miðað er við að nemendur sem útskrifast af námsbrautinni hafi aflað sér nauðsynlegrar þekkingar til að uppfylla þær menntunarkröfur sem gerðar eru til skipulagsfræðinga af Skipulagsfræðingafélagi Íslands. Sjá hér námsskrá í Skipulagsfræði.

Störf
Vaxandi þörf er fyrir menntaða skipulagsfræðinga á Íslandi en samkvæmt lögum þurfa sveitarstjórnir að útbúa svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag og að auki er krafa um landsskipulagsáætlun.

Námið er sniðið að íslenskum þörfum en fylgir engu að síður nýjustu stefnum í skipulagskenningum og fræðigreininni. Nemendur eru þjálfaðir í að beita meigindlegum og eigindlegum rannsóknaraðferðum, rýmishönnun og hagnýtri nálgun við lausn skipulagsverkefna með samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila.

Að loknu námi eiga nemar að geta fengist við ýmisleg skipulagsverkefni t.d. unnið sjálfstætt að ráðgjöf og aðstoðað opinbera aðila við ákvarðanir í skipulagsmálum og metið líklegar afleiðingar þeirra.

Forkröfur fyrir innritun
Þeir sem lokið hafa BS eða BA prófi, með fyrstu einkunn hið minnsta, geta sótt um inngöngu í námið. Ef nemandi uppfyllir ekki ákveðnar forkröfur verður honum gert kleift að taka þau námskeið sem á vantar á fyrsta skólaárinu samhliða meistaranáminu. Gerðar eru forkröfur um að nemendur hafi lokið grunnnámskeiðum í hagfræði, umhverfismálum (vistfræði og náttúrufræði), kortalæsi (GIS), tölfræði, tölvustuddri hönnun og grafískri framsetningu á háskólastigi. Metið í hverju tilviki fyrir sig.