Umsókn um starfsmenntanám á framhaldsskólastigiSkráningargjald
Engin skólagjöld eru í Landbúnaðarháskóla Íslands en árlegt skrásetningargjald í starfsmenntanámi er 35.000 kr.

Rafrænt umsóknareyðublað
er aðgengilegt frá 1. mars 2017 til miðnættis 5. júní. Sjá hnappinn til hægri.

Garðyrkjunám: Nemendur verða næst teknir inn haustið 2018.

Skráningargjald
Greiðsluseðill vegna skrásetningargjalds birtist í heimabanka þeirra sem veitt hefur verið skólavist, þegar umsókn hefur verið samþykkt. Gjalddagi er 4. júlí. Með greiðslu skrásetningargjalds staðfestir umsækjandi skólavist við Landbúnaðarháskóla Íslands. Skráningargjaldið er óafturkræft.

Staðfest ljósrit
Skila þarf staðfestu ljósriti úr framhaldsskóla (ljósriti/afriti með bláum stimpli og undirritun) af öllu stúdentsprófsskírteininu eins fljótt og hægt er. Óstaðfest eða skönnuð skírteini eru ekki tekin gild. Framangreindur umsóknarfrestur gildir einnig um þá sem ljúka stúdentsprófi í desember 2016. Þeir þurfa að skila stúdentsprófsskírteini jafnskjótt og það liggur fyrir.
Umsækjendur sem í umsóknarferlinu veittu Landbúnaðarháskóla Íslands leyfi til að sækja rafrænt stúdentsprófskírteini úr Innu þurfa ekki að skila staðfestu afriti.

Ef umsókn hefur verið samþykkt
Sé umsókn samþykkt birtist rafrænn reikningur fyrir skrásetningargjaldi, sjá skráningargjald hér ofan, í netbanka umsækjanda. Reikninginn ber að greiða í síðasta lagi 5. júlí 2017 (eindagi gjaldsins). Greiðsluseðill á pappír er einungis sendur á lögheimili þeirra sem óskuðu sérstaklega eftir því í rafrænni umsókn. Skrásetning til náms við LbhÍ tekur gildi við greiðslu skrásetningargjaldsins. Gjaldið er ekki endurkræft. Ef skrásetningargjaldið er ekki greitt á eindaga er litið svo á að umsækjandi hyggist ekki stunda nám við LbhÍ skólaárið 2016-2017.

Veflykill
Við umsókn fær umsækjandi úthlutað veflykli sem hann þarf að varðveita. Ef veflykill glatast þarf umsækjandi að hafa samband við Kennsluskrifstofu LbhÍ. Að útfylltri umsókn fær umsækjandi sendan veflykil í tölvupósti og með veflyklinum er hægt að fylgjast með stöðu umsóknar.

Reikningur í netbanka
Þegar umsóknir hafa verið samþykktar birtast rafrænir reikningar fyrir skrásetningargjaldi í netbanka. Þegar greiðsla hefur farið fram sækja umsækjendur um notandanafn og lykilorð með því að fara á slóðina nynemar.lbhi.is, sjá leiðbeiningar hér fyrir neðan.

Ef hvorki krafa né rafrænn reikningur birtast í netbankanum og umsækjandi getur ekki greitt rafrænt skal hafa samband við Kennsluskrifstofu LbhÍ. Netfang: kennsluskrifstofa (hjá)lbhi.is fyrir eindaga hverju sinni.

Notendanafn og lykilorð
Notandanafn og lykilorð eru frumskilyrði þess að nálgast megi upplýsingar um námsframvindu, hafa samskipti við kennara og nýta sér tölvuþjónustu skólans. Notandanafn er jafnframt tölvupóstfang hjá skólanum (notandanafn(hjá)lbhi.is).

Hvernig á að sækja notendanafn og lykilorð?
Til að sækja sér notandanafn og lykilorð þarf að fara á slóðina nynemar.lbhi.is (á sama stað og fylgst var með framgangi umsóknar) og slá á ný inn veflykil og kennitölu. Nauðsynlegt er að hinkra við því tvær klukkustundir geta liðið þar til aðgangur að kerfinu verður virkur. Að þeim tíma liðnum getur umsækjandi skráð sig inn og byrjað að nýta sér Uglu, innra vefkerfi Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar fléttast upplýsingakerfin saman í eina heild og hver nemandi fær aðgang að upplýsingum sem að honum lúta. Þar geta nemendur m.a. séð stundatöflu sína og nálgast yfirlit um einkunnir, námsferil og námskeið.