Nýnemar - gagnlegar upplýsingar 
 
SKÓLAÁRIÐ
 
Búfræðibraut
Kennsla í búfræði á fyrsta ári byrjar í lok ágúst og lýkur í lok mars, en þá tekur við verknám á viðurkenndu verknámsbýli.
 
Garðyrkjubrautir
Kennsla á garðyrkjubrautum hefst í lok ágúst og stendur fram í lok apríl.
 
Háskólabrautir
Á háskólabrautum hefst skólaárið um 20. ágúst og lýkur í maí. Skólavetrinum er skipt niður í fjórar annir sem eru sjö vikur hver, tvær annir að hausti og tvær að vori. Eftir hverja önn eru tvær prófavikur.
 
Kennsluhlé
Jólaleyfi er frá 19. desember til 4. janúar og páskaleyfi frá miðvikudegi fyrir skírdag til þriðja í páskum. Upphafs- og lokadagur hvors leyfis telst með. Auk þessara leyfa er kennsluhlé sumardaginn fyrsta, 1. maí og 1. desember. Ítarlegri starfsáætlun er að finna á Uglu.
 
 
KENNSLUSKRIFSTOFA: MIKILVÆG MINNISATRIÐI
 
 
Staða umsóknar
Að útfylltri umsókn fær umsækjandi sendan veflykil í tölvupósti og með veflyklinum er hægt að fylgjast með stöðu umsóknar.
 
Kennslubækur
Kennslubækur á garðyrkjubrautum eru seldar á Reykjum. Kennslubækur í búfræði eru seldar í bóksölunni í Rannsóknahúsinu á Hvanneyri. Erlendar bækur sem eru kenndar á námskeiðum í háskóladeildum eru seldar í Bóksölu stúdenta í Reykjavík.
 
Stundatafla
Kennslustjóri býr til stundatöflur og eru þær birtar þremur til fjórum vikum áður en kennsla hefst (með fyrirvara um breytingar).
 
Vottorð
Öll vottorð varðandi skólavist eru afgreidd frá kennsluskrifstofu.
 
Úrsögn úr áföngum
Nemendur þurfa að segja sig úr áföngum í síðasta lagi sjö dögum fyrir próf til að það hafi ekki áhrif á námsferil þeirra.
 
Úrsögn úr skóla
Ef nemandi segir sig úr námi við LbhÍ verður tilkynning um það að berast kennsluskrifstofu.
 
Jöfnunarstyrkir
Þeir nemendur á framhaldsskólastigi, sem fá ekki lán hjá LÍN, geta sótt um styrk til jöfnunar námskostnaðar. Umsóknina á að senda til LÍN. Allar upplýsingar er að finna á www.lin.is en sækja skal um fyrir 15. október ár hvert.
 
Námsmat 
Þremur vikum fyrir áætlaðan próftíma er opnað fyrir námsmat fyrir hvern áfanga en það er liður í gæðastarfi skólans. Í námsmatinu meta nemendur gæði kennslu með formlegum hætti á þar til gerð rafræn eyðublöð. Nemendur eru beðnir um að vera virkir í þessu starfi.
 
Próftafla 
Próftöflur skólans eru birtar á Uglu fjórum vikum fyrir áætlaðan próftíma.
 
Próf
Samþykki kennsluskrifstofu þarf til ef staðarnemi óskar eftir að taka próf á öðrum stað en ráð hafði verið fyrir gert. Sjúkra- og endurtökupróf eru haldin áður en skólahald hefst í janúar og ágúst
Afrit af prófum eru geymd á ftp svæði og hægt er að komast í þau í gegnum Uglu/próftöflur/prófreglur og hafa nemendur aðgang að þeim þar. Á Reykjum eru afrit af prófum aðgengileg á bókasafni. Próf eru haldin eftir að hverri önn lýkur. Tvisvar að hausti og tvisvar að vori í háskóladeildum en einu sinni að hausti og einu sinni að vori á starfsmenntabrautum. Fjarnemar geta fengið að taka próf á prófstöðum í sinni heimabyggð.
 
Einkunnir
Kennarar hafa 11 virka daga til að fara yfir prófúrlausnir úr lokaprófum. Einkunnir eru settar fram með einum aukastaf. Kennarar eiga að birta einkunnir fyrir verkefni sem gilda sem hluti lokaeinkunnar á Moodle, Uglu eða beint til nemenda. Ef það hefur misfarist verður nemandi að hafa samband beint við viðkomandi kennara.
 
Sjúkra- og endurtökupróf
Nemendur þurfa að skrá sig í sjúkra- og endurtökupróf sem eru í boði hverju sinni. Fyrsta endurtektarpróf er án kostnaðar fyrir nemanda ef prófið er þreytt á reglulegum prófatíma, þ.e.a.s. að aflokinni kennslu í viðkomandi áfanga. Greiða þarf fyrir sjúkra- og endurtökupróf sem tekin eru í janúar fyrir haustönn eða í ágúst fyrir vorönn. Einnig þarf að greiða fyrir þriðja og síðara endurtektarpróf, sem og öll aukapróf utan venjulegs prófatíma.
 
ÞJÓNUSTA Í SKÓLANUM
 
Nemendagarðar 
Upplýsingar um úthlutun húsnæðis á nemendagörðum verður send til nemenda fyrir 1. júlí. Allar upplýsingar um húsnæði eru á heimasíðu nemendagarða.
 
 
Nemendafélagið
Nemendafélag LbhÍ sér um hagsmuni nemenda. 
 
Líkamsrækt á Hvanneyri
Líkamsræktarstöð er í kjallara Ásgarðs. Kort í líkamsræktina fást hjá gjaldkera Nemendafélagsins: studentarad@lbhi.is. Nánari upplýsingar um líkamsræktina hjá nemendafélaginu.
 
Hestamennska
Landbúnaðarháskóli Íslands rekur vel búna hestamiðstöð að Mið-Fossum við Hvanneyri. Þar er mjög góð aðstaða til að stunda hestamennsku, 80 hesta hús með eins og tveggja hesta stíum, björt og glæsileg reiðhöll 30x60 m með áhorfendastúku, útigerði, vandaður keppnisvöllur og góðar reiðleiðir. Nánari upplýsingar eru hér.

Mötuneyti
Mötuneyti er í Ásgarði. Þar er hægt að kaupa léttan morgunverð, kaffi og hádegisverð. Matseðillinn er aðgengilegur á Uglu. Matarmiðar eru seldir í afgreiðslu Ásgarðs. Hægt er að hafa samband við Óla Pál, matreiðslumann, í síma 865-1262, eða á netfangið olipallkokkur@lbhi.is.
Mötuneyti er einnig á Reykjum. Matarmiðar eru seldir á skrifstofu skólans. 
 
Tölvuver
Tölvuver skólans á Hvanneyri er í kjallara Ásgarðs. Þar að auki eru tölvur á bókasafni og þráðlaust netsamband er í Ásgarði, bókasafni, Gamla skóla, Rannsóknahúsi og Bútæknihúsi. Á Reykjum er þráðlaust netsamband í skólahúsi og nemendatölvur á bókasafni. Nemendur fá öll lykilorð og nánari upplýsingar við komu í skólann.
 
Prent- og ljósritunarkvótar
Til þess að geta notað prentara og ljósritunarvélar þurfa nemendur að fá prentarakort, sem á Hvanneyri fást í afgreiðslu Ásgarðs en á Reykjum á skrifsstofu. 
 
Tölvunotkun
Allir notendur að tölvubúnaði, tölvuneti, gögnum eða annarri tölvuþjónustu hjá LbhÍ, bera ábyrgð á notkun sinni og skulu auðkenna sig rétt í öllum samskiptum á neti skólans.
 
Vírusvarnir
Nemendum er ekki heimilt að tengja tölvur sínar við netkerfi skólans nema þeir séu með samþykktar og uppfærðar vírusvarnir.
 
 
ÞJÓNUSTA Á HVANNEYRI
 
 
 
Pöbbinn á Hvanneyri
Pöbbinn er vinsæll samkomustaður og þar geta gestir m.a. horft á íþróttaviðburði á stórum skjá, farið í „pool” og pílukast. Staðurinn er opinn á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöldum.
 
ÖNNUR ÞJÓNUSTA
 
Strætisvagnar - Borgarfjörður
Strætisvagnar aka á milli Reykjavíkur og Borgarness. Einnig er ekið á milli Borgarness og Hvanneyrar. Sjá heimasíðu Strætó.
 
Strætisvagnar - Hveragerði
Strætisvagn nr. 51/52 gengur milli Hveragerðis, Selfoss og Reykjavíkur. Sjá heimasíðu Strætó.