Samkomulag Alcan á Íslandi hf og Votlendisseturs LbhÍAlcan á Íslandi hf. og Votlendissetur Landbúnaðarháskóla Íslands hafa gert með sér fjögurra ára samstarfssamning um endurheimt votlendis í því skyni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Um 4% af flatarmáli Íslands er land sem var áður votlendi en hefur verið ræst fram með skurðum. Í votlendi safnast fyrir mikið af lífrænu efni. Hverfi vatnið brotna þessi efni niður og mynda koldíoxíð.

Varlega áætlað losna þannig tæplega 2 milljónir tonna af koldíoxíði frá framræstu landi á Íslandi. Þessa losun má víða stöðva með því að fylla upp í skurði. Því er ljóst að endur-heimt votlendis felur í sér mjög mikil tækifæri til að draga úr losun gróðurhúsaloft-tegunda.

Þessi tegund mótvægisaðgerða í loftslagsmálum hefur fengið fremur litla athygli en sjónir hafa þó beinst að henni í auknum mæli undanfarið, bæði á Íslandi og erlendis.

Markmið samningsins er að endurheimta um 5 ferkílómetra votlendis og stöðva þannig árlega losun á um 2.500 tonnum af koldíoxíði. Það jafngildir nokkurn veginn því að taka 600 fólksbíla úr umferð. Jafnframt er markmið samningsins að þróa aðferðir til að mæla og meta með viðunandi vissu árangurinn af endurheimt með tilliti til losunar gróðurhúsa-lofttegunda.
Markmiðin um umfang endurheimtar taka mið af því að um brautryðjendastarf er að ræða og engir alþjóðlegir staðar til um mat á árangri. Því er gert ráð fyrir að kostnaður við mælingar á losun fyrir og eftir endurheimt og þróun aðferða til mats á árangri aðgerðanna verði umtalsverður.

„Ábyrgð er eitt af gildum álversins í Straumsvík. Í því felst meðal annars að horfast í augu við að álframleiðsla felur í sér umtalsverða losun á gróðurhúsalofttegundum og að freista þess með öllum raunhæfum ráðum að draga úr henni,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi. „Og það hefur okkur svo sannarlega tekist, því frá 1990 hefur losunin á hvert framleitt tonn minnkað um heil 75% og er núna með því minnsta sem þekkist hjá nokkru álveri í heiminum. Þar sem ekki verður komist öllu lengra í þessari viðleitni í rekstrinum sjálfum ákváðum við að skoða möguleika á mótvægisaðgerðum og niðurstaðan var sú að endurheimt votlendis væri ákjósanlegasti kosturinn. Þetta er næsta stóra skrefið okkar í umhverfismálum og ég bind miklar vonir við verkefnið.“

„Menn eru nú í seinni tíð almennt að átta sig á því hversu mikilvæg votlendi jarðar eru og viðhald og endurheimt þeirra er í vaxandi mæli að mæta skilningi,“ segir Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands. „Mikilvægi þekkingar á þessum vistkerfum er því augljós og þess vegna ákváðum við fyrir nokkru að stofna til sérstaks seturs sem í framtíðinni gæti þjónað sem miðstöð fræðslu og vísinda á sviði votlendisfræða. Þessi samningur sem við höfum nú gert við Alcan á Íslandi er afar þýðingarmikill hvað varðar skipulagða endurheimt og kolefnisbindingu og auðvitað einnig fyrir þróun og eflingu Votlendissetursins sjálfs. Þá má heldur ekki gleyma að votlendin eru víða afar mikilvægt land til ræktunar og beitar og sjálfbær nýting þeirra landbúnaðinum því mikilvæg.“

„Á undanförnum áratug hafa rannsóknir sérfræðinga við Landbúnaðarháskóla Íslands sýnt fram á hversu mikil losun koldíoxíðs er úr framræstu landi, en jafnframt að með endurheimt votlendis megi snúa dæminu við,“ segir Hlynur Óskarsson, forstöðumaður Votlendisseturs Landbúnaðarháskólans. „Aftur á móti hefur skort bæði tíma og fjármuni til að þróa aðferðir til að meta og votta árangur af endurheimt með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda, sem er bagalegt því vilji landeigenda í þessa átt er allnokkur. Samningurinn við Alcan gerir okkur kleift að sinna því verkefni og er því um ákveðið brautryðjendastarf að ræða, sem gagnast öllum þeim sem í framtíðinni velja þessa leið til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.“

Votlendissetur mun leita eftir samstarfi við landeigendur um endurheimt votlendis á landi þeirra og hafa nokkrir landeigendur þegar lýst áhuga. Votlendi stuðlar að auknum líffræðilegum fjölbreytileika, ekki síst hvað varðar fuglalíf. Auk þess má gera ráð fyrir að þátttaka í mótvægisaðgerðum í loftslagsmálum þyki eftirsóknarverð og geti meðal annars skapað möguleika í vistvænni ferðaþjónustu.

Alcan á Íslandi mun leggja fram allt að 40 milljónir króna á samningstímanum til að fjármagna verkefnið en val á landsvæðum, framkvæmd endurheimtar og mat á árangri aðgerða verður í höndum Votlendisseturs. Fimm manna verkefnisstjórn stýrir framkvæmd samningsins og skipar Alcan á Íslandi tvo fulltrúa, Votlendissetur tvo fulltrúa og Umhverfisráðuneytið einn fulltrúa. Formaður verkefnisstjórnar verður Hlynur Óskarsson, forstöðumaður Votlendisseturs. Fulltrúi umhverfisráðuneytisins verður Guðmundur Halldórsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslu ríkisins.

Smelltu hér til að lesa ræðu Rannveigar Rist frá blaðamannafundinum þar sem verkefnið var kynnt.