Starfsreglur Hollvinafélags LbhÍ1. grein
Nafn félagsins er:  
Hollvinafélag Landbúnaðarháskóla Íslands.
Heimili þess og varnarþing er á Hvanneyri.

2. grein
Markmið félagsins er að:
a) Efla og viðhalda tengslum milli allra sem hafa lokið eða stundað nám við Landbúnaðarháskóla Íslands, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Bændaskólann á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins, núverandi og fyrrverandi starfsmanna og annarra sem bera hag LbhÍ fyrir brjósti. Sama gildir um fyrrverandi starfsmenn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala).
b) Styðja við og efla starf Landbúnaðarháskóla Íslands.

3. grein
Markmiðum sínum hyggst félagið ná:
a) Með því að starfa með LbhÍ.
b) Með því að hvetja til opinnar umræðu um verkefni LbhÍ.
c) Með því að hafa frumkvæði að og taka þátt í einstökum verkefnum sem til heilla horfa fyrir námið. Stofnaður verður sérstakur tækjakaupasjóður sem hægt er að nýta í þessu sambandi.
d) Með því að halda uppi annarri starfsemi er stjórn félagsins og aðalfundur ákveða
e) Með því að nýta eignir og ráðstafa tekjum félagsins í samræmi við markmið þess.
f) Með því að rækta samband við afmælisárganga frá Hvanneyri og Reykjum. 

4. grein
Félagar geta allir orðið sem hafa lokið eða stundað nám við LbhÍ eða forvera skólans á Reykjum og Hvanneyri. Sama gildir um núverandi og fyrrverandi starfsmenn sömu stofnana, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins (Rala) og þá sem hafa unnið með eða fyrir ofangreindar stofnanir. Aðrir sem þess óska eru velkomnir í félagið. Inntaka nýrra félaga skal staðfest á aðalfundi ár hvert. Ef félagsmaður óskar skal  hann tekinn af félagaskrá.

5. grein
Hollvinafélag LbhÍ hefur umsjón með íbúð á Hvanneyri sem stendur félagsmönnum til boða á sumrin. Ákveðinn starfsmaður hjá LbhÍ mun hafa það í sínum verkahring að viðhalda reglulegum tengslum félagsins við skólann og vera stjórn félagsins innan handar í hvívetna.

6. grein
Ekki verða  innheimt félagsgjöld, en fé safnað ef þess gerist þörf. Í því sambandi er bent á grein 3 C.

7. grein
Reikningsár félagsins er almanaksárið og skulu reikningar lagðir fram á aðalfundi.

8. grein
Aðalfund Hollvinafélags LbhÍ skal halda árlega á vorin og er hann öllum opinn. Til aðalfundar er boðað með a.m.k. 7 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur sé rétt til hans boðað samkvæmt framansögðu.

9. grein
Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:
a.  Inntaka nýrra félaga.
b.  Skýrsla stjórnar
c.  Reikningar lagðir fram til samþykktar.
d.  Breytingar á samþykktum félagsins.
e.  Kosning fulltrúaráðs til eins árs. Fulltrúaráðið samanstendur á hverjum tíma að lágmarki af 25 einstaklingum.  Formaður þess er kosinn sérstaklega sem og fjórir aðrir stjórnarmenn.
f.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
g.  Umræður og ákvarðanir um verkefni næsta starfsárs.  
h.  Önnur mál.

10. grein
Fyrsta fulltrúaráð félagsins er skipað 66 einstaklingum. Það er í upphafi tilnefnt af undirbúningsnefnd. Þetta fulltrúaráð situr til aðalfundar vorið 2012, en það kemur fyrst saman til fundar vorið 2011. Undirbúningsnefndin mun fyrir fundinn vorið 2011 tilnefna formann og fjóra aðra í stjórn sem sitji til aðalfundar Hollvinafélagsins vorið 2012.

Stefnt er að því að kalla fulltrúaráðið saman til fundar einu sinni á ári milli aðalfunda.  Leitast skal við að fulltrúaráðið endurspegli sem flest fagsvið LbhÍ.

Skoðunarmenn reikninga, kosnir á aðalfundi, skulu vera tveir. Þá skal kjósa fyrst vorið 2011.

11.  grein
Formaður fulltrúaráðsins gerir áætlun um verkefni starfsársins á grundvelli umræðu og ályktana á aðalfundi. Hann getur skipað félagsmenn sér til aðstoðar í þágu þess, s.s. í starfshópa eða nefndir um afmörkuð verkefni.

12. grein
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundum félagsins. Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi og þarf til þess tvo þriðju hluta atkvæða.

13.  grein
Verði félaginu slitið skulu eignir þess, ef einhverjar eru, renna til Landbúnaðarháskóla Íslands eða löglegs arftaka skólans.

14. grein
Sumt af því sem stendur í ofangreindum greinum er tímabundið vegna stofnunar félagsins. Því þarf að endurskoða regluverkið í beinu framahaldi af aðalfundi félagsins vorið 2011. Breytt lög þarf að leggja fyrir aðalfund vorið 2012.
................
Samþykkt á stofnfundi Hollvinafélags LbhÍ
Hvanneyri 29. apríl 2011
Áskell Þórisson, ritari undirbúningsnefndar