Votlendi og mikilvægi þessVotlendi sem landslagseining hefur mikið og margvíslegt gildi. Þannig getur votlendi haft afgerandi áhrif á hringrásir vatns og næringarefna, jafnframt því að auka verulega við líffræðilega fjölbreytni viðkomandi svæðis. Mikilvægi votlendis má flokka á eftirfarandi hátt:
Vatnsfræðilegt gildi: Í miklum rigningum taka votlendissvæði til sín vatn, en miðla vatni frá sér í þurrkatíð. Á þann hátt viðhalda votlendissvæði jöfnu rennsli í lækjum og ám, en jafnt rennsli straumvatna er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa, s.s. laxfiska.
Næringarefnafræðilegt gildi: Við vöxt taka jurtir til sín koltvísýring úr andrúmslofti. Við niðurbrot jurtaleifa skilar koltvísýringurinn sér út í loftið aftur. En vegna hárrar jarðvatnsstöðu mýra er niðurbrot jurtaleifa hægfara og afleiðing þess er sú að með tímanum safnast jurtaleifar fyrir og mynda mólög.
Mýrar hafa því að geyma óhemju magn af kolefni og allar breytingar í kolefnisbúskap þessara vistkerfa því mikilvægar á hnattræna vísu.
Breytingar á ytri aðstæðum, s.s. hækkun meðalhitastigs eða lækkun vatnsstöðu, geta haft afdrifarík áhrif á kolefnisbúskap þessara vistkerfa og jafnvel leitt til nettó losunar kolefnis. Stór hluti votlendis hér á landi hefur þegar tekið miklum breytingum vegna breyttrar vatnstöðu í kjölfar framræslu.
Vistfræðilegt gildi: Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Tilvist votlendis eykur því verulega við líffræðilega fjölbreytni viðkomandi landsvæðis.
 

Hnignun votlendis
Mikið hefur gengið á votlendi landsins undanfarna áratugi. Í kjölfar jarðræktarlaga (1923) og með tilkomu stórvirkra vinnuvéla á fimmta áratug þessarar aldar, urðu þáttaskil í nýtingu mýrlendis hér á landi. Upphófst þá tímabil stórfelldrar framræslu sem styrkt var með framlögum úr opinberum sjóðum.
Til að byrja með voru láglendismýrar, sem eru víða frjósamar og vel fallnar til ræktunar, ræstar fram til túngerðar. Seinna meir jókst mjög framræsla mýra til að bæta þær sem beitiland. Vegagerð og þéttbýlismyndun hafa einnig tekið sinn toll og við virkjanir fallvatna hefur straumvötnum verið breytt og landi sökkt undir miðlunarlón.

Nú er svo komið að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi. Sem dæmi má nefna að athuganir hafa leitt í ljós að einungis 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og einungis 18% votlendis á Vesturlandi (sjá: Íslensk votlendi. Verndun og nýting – Háskólaútgáfan 1998).
Þessi saga hnignunar votlendis hér á landi er ekki einsdæmi; svipaða sögu er að segja um allan heim þar sem örar tækniframfarir hafa orðið.

Endurheimt votlendis
Markmið
Með endurheimt votlendis er leitast við að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti.
Skilyrði þess er að vatnsbúskapur á svæðunum verði í líkingu við það sem áður var.
Með tímanum ætti endurheimt votlendi að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið og önnur virkni að færast til fyrra horfs.
Líta má á endurheimt sem lið í almennri náttúru- og landslagsvernd.
Endurheimt getur aukið útivistargildi svæða. Þau verða áhugaverðari til fuglaskoðunar og skilyrði geta skapast til veiða á fugli og fiski.

Aðstæður á Íslandi
Víða erlendis hefur framræst land verið tekið til akuryrkju og er allur votlendisgróður og dýralíf horfið af því.
Endurheimt votlendis á slíkum svæðum er því bæði fyrirhafnar- og kostnaðarsöm.
Hér á landi eru aðstæður til endurheimtar góðar þar sem ræktun er fremur lítil og gróður framræstra mýra víða blandaður votlendistegundum.
Einna mestar breytingar hafa orðið á landi sem hefur verið breytt í tún eða þar sem tjarnir og smávötn hafa þornað upp eða gruggast, af framburði úr skurðum.
Á Íslandi má því víða endurheimta votlendi með fremur einföldum aðgerðum. Hafa ber hugfast að endurheimt votlendissvæði verða seint eða aldrei söm og ósnortin votlendi.

Hverjir geta endurheimt votlendi?
Um allt land má finna röskuð votlendissvæði sem eru fallin til endurheimtar.
Bændur og aðrir landeigendur til sveita ættu að huga að endurheimt votlendis þar sem landnýting hefur breyst.
Sveitarfélög ættu að hafa endurheimt votlendis í umhverfisstefnu sinni en hún fellur vel að Staðardagskrá 21.
Félagasamtök og fyrirtæki geta beitt sér fyrir endurheimt votlendis.
Nýmæli hérlendis er að framkvæmdaaðilum er gert, eftir mat á umhverfisáhrifum, að endurheimta votlendi fyrir ósnortið land sem tapast við framkvæmdir.

Undirbúningur endurheimtar
Mikilvægt er að undirbúa endurheimt vel. Leita þarf samþykkis landeigenda og sátt þarf að ríkja um fyrirhugaðar aðgerðir granna á milli. Huga þarf vel að því landi sem endurheimta á og meta hvort eitthvað muni fara forgörðum.
Kanna þarf streymi vatns og íhuga hvort skurðafyllingar, stíflur eða garðar standist álag í leysingum og stórrigningum.
Gæta verður að umferð búpenings og manna og sporna við slysahættu. Æskilegt er að skrá helstu einkenni í lífríki svo hægt sé að fylgjast með árangri.
Talsverð reynsla er fengin af endurheimt votlendis erlendis og má fá þaðan gagnlegar upplýsingar úr ritum (sjá heimildaskrá) og af veraldarvefnum.

Aðferðir
Við endurheimt votlendis þarf yfirleitt að hækka vatnsstöðu.
Við vötn og tjarnir getur nægt að stífla útfallsskurð.
Stíflur má gera úr jarðvegi, torfi, grjóti, timbri og öðru tiltæku efni sem fellur vel að umhverfinu. Vatnshæð í tjörn má stjórna með útfallsröri gegnum stíflu. Mikilvægt er að vanda frágang við stíflur og útbúa þær þannig að þær standist álag í flóðum.
Sums staðar þarf að beina gruggugu mýrarvatni úr skurðum fram hjá tjörnum.
Þegar mýrasvæði eru endurheimt kemur til álita að stífla eða fylla skurði.
Þar sem halli er mikill er hætta á að vatn grafi sig niður í gamla skurðstæðinu eða rjúfi stíflur og getur þá reynst torsótt að endurheimta slíkt land.
Margt má læra af þeim tilraunum sem gerðar hafa verið hér á landi.